Hér er tæpt á helstu atriðum í ökunámi og nokkrum um prófin.

1. Ökukennsla

Fyrsta skrefið að ökuprófi er að fara í ökukennslu. Kennslan skiptist í bóklega og verklega kennslu. Til að hefja ökunám er því haft samband við ökukennara sem sér um framkvæmd verklegu kennslunnar og hefur umsjón með bóklegri fræðslu. Til að öðlast aukin ökuréttindi er haft samband við ökuskóla sem bjóða upp á slíkt nám.

2. Umsókn um ökuskírteini (námsheimild)

Próftökuheimild sýslumanns þarf að liggja fyrir hjá Frumherja áður en hægt er að hefja nám eða, eftir því sem við á, að panta ökupróf, skriflegt eða verklegt. Umsókninni er skilað til sýslumanns (fyrir Reykjavík er það Sýslumaðurinn í Kópavogi ) og um leið er greitt fyrir ökuskírteinið. Sýslumenn yfirara umsóknir og gefa út próftökuheimild sé öllum skilyrðum fullnægt, og senda þær því næst til Frumherja. Þegar þær hafa borist Frumherja er heimilt að panta tíma í skriflegt próf.

3. Skrifleg próf

Þegar próftökuheimild berst Frumherja frá sýslumönnum er hún skráð í gagnagrunn. Að því loknu er próftaka heimilt að panta próf. Í boði er hóppróf (hámark 12 manns), lespróf (hámark 5 manns).

Lespróf eru ætluð einstaklingum:
a) Próftaki er lesblindur
b) Próftaki er illa læs eða ólæs

Einstaklingspróf (próftaki einn með prófdómara). Einstaklingspróf er ætlað einstaklingum:
a) Próftaki er lesblindur.
b) Próftaki er illa læs eða ólæs.
c) Próftaki á almennt erfitt með krossapróf (t.d. fullorðið fólk, fólk sem er óvant því að taka skrifleg próf, mjög óöruggt með sjálft sig, á mjög erfitt með að einbeita sér, er haldið einhverri þroskahömlun eða miklum prófkvíða).

Túlkapróf eru ætluð próftökum frá löndum sem tala tungumál sem ekki eru til prófhefti í safni Frumherja.

Boðið er upp á próf á eftirfarandi tungumálum fyrir B- réttindi: Íslensku, ensku, dönsku, norsku, pólsku, sænsku, spænsku, tælensku og arabísku. Íslensku og ensku fyrir A- réttindi og íslensku, ensku og pólsku fyrir aukin ökuréttindi. Venjulega er það próftaki sem sér um að panta bóklega prófið á vefsíðu Frumherja eða á prof.is. Ef próftaki stenst ekki próf er hægt að panta strax nýjan próftíma, en a.m.k. vika verður að líða á milli prófa. Skriflegt próf má taka mest tveimur mánuðum áður en próftaki hefur aldur til að öðlast ökuréttindi. Nauðsynlegt er að hafa ökukennara með í ráðum áður en pantaður er tími í próf. Kennarinn yfirfer ökunámsbókina og sér til þess að öllum skilyrðum til próftöku sé fullnægt.

4. Verkleg próf

Þegar próftaki hefur staðist skriflegt próf er heimilt að panta verklegt próf. Er það ökukennari sem sér um að panta próftímann. Ef próftaki stenst ekki próf er hægt að panta strax nýjan próftíma, en a.m.k. vika verður að líða á milli prófa.

 

2023-03-29 22:15:13