Almennt

Prófunarstofa Frumherja hefur með höndum umsýslu sölumæla fyrir raforku og vatn fyrir orkuveitur, en áður heyrði þessi þjónusta undir Orkumæladeild.

Þjónustan snýr að öllum þáttum, allt frá innkaupum til förgunar mælanna. Um er að ræða innkaup, uppsetningu, niðurtekt, útskipti, viðgerðir, álestur og förgun. Jafnframt tryggir fyrirtækið að allir mælar séu löggiltir og viðheldur löggildingu mælanna með reglubundnum úrtaksprófunum og endurnýjun mæla. Þetta er því heildarlausn fyrir orkuveitur varðandi mælingar á orkusölu til notenda.

Sölumælingar

Boðið er upp á mæla af öllum stærðum og gerðum fyrir raforku (einfasa, þrífasa og afl), heitt vatn (30-160°C) og kalt vatn (0-30°C). Mælitækni fleygir fram og sífellt eru gerðar auknar kröfur til nákvæmni, mælifræðilegra eiginleika þeirra, tengingu hússtjórnarkerfa við mælitæki og aðgengi að mælingum (álestrum). Orkusvið fylgist vel með þróuninni og getur boðið þær lausnir sem nauðsynlegar eru í samstarfi við birgja sem eru í hópi stærstu mæliframleiðenda heims.

Frumherji á mælitækin og fylgibúnað og leigir út til orkuveitna og annarra viðskiptavina sem sölumælingu. Jafnframt er boðið upp á umsjón mælasafna sem eru í eigu veitnanna, þ.e. Frumherji  tekur þá að sér að viðhalda mælifræðilegum eiginleikum þeirra með skipulagningu reglubundinna úrtaksprófana þar sem gildandi reglum er fylgt.

Alla jafna sér Frumherji um alla vinnu við mælitækin, þ.e. uppsetningu mælitækis og niðurtekt að mælingu lokinni, að skipta um mælitæki ef breytingar verða á aðstæðum, ásamt reglubundnum skiptum til að viðhalda mælifræðilegum eiginleikum. Þrátt fyrir alþjónustu af þessu tagi geta orkuveitur séð um mælabreytingar að einhverju leyti sjálfar, t.d. uppsetningu nýrra mæla, ef þess er óskað.

Fjarmælingar - rafrænn álestur

Frumherji býður upp á fjarálestrarbúnað fyrir bæði rafmagns- og vatnsrennslismælingar. Með slíkum búnaði er ekki lengur þörf á að komast að mælitækinu sjálfu til að lesa stöðuna og hægt er að fá álestra eins oft og þörf er á, þess vegna nokkrum sinnum á dag.

Fjarálestrarbúnaður er enn í talsverðri þróun hjá mælaframleiðendum og engin ein lausn ráðandi. Í flestum tilvikum er þörf á því að endurnýja þá mæla sem nú þegar eru í notkun til að geta tengt fjarálestrarbúnaðinn þótt margir mælaframleiðendur hafi fyrir nokkrum árum farið að útbúa mælitæki sín þannig að hægt væri að tengja þau við fjarálestrarbúnað. Við uppsetningu fjarálestrarkerfis verður því að horfa til mælasafnsins hverju sinni og óska um tíðni álestra.

Fjarálestrarbúnaður getur verið tvennskonar, grenndarálestrarbúnaður eða hringibúnaður. Við notkun grenndarálestrarbúnaðar eru litlir sendar tengdir við mælana sem draga nokkra tugi eða hundruði metra. Við álesturinn er hægt að nota sérstakar álestrarhandtölvur, færanlegar safnvélar eða fastar safnstöðvar. Við notkun hringibúnaðar eru hringieiningar tengdar við mælana sem gerir þeim mögulegt að hringja inn í gagnagrunn og tilkynna inn mælisstöðuna.

Þegar um fáa mæla er að ræða (nokkur hundruð), eða þeir eru dreifðir (t.d. sumarbústaðir), er hagkvæmasta lausnin að vera með álestrarhandtölvur. Þegar þéttleiki mæla er orðinn meiri (á afmörkuðum svæðum í þéttbýli) er notkun safnvéla eða safnstöðva orðinn fýsilegri kostur. Hringibúnaður nýtist vel ef safna þarf álestrum daglega eða jafnvel oft á dag, einnig þar sem aðstæður eru erfiðar til álesturs einstakra mæla.

Þegar sækja þarf álestra með handtölvum getur hvort sem er veitan eða Frumherji sinnt því. Frumherji safnar síðan öllum álestrum úr fjarálestrarbúnaði inn í gagnagrunna og skilar þeim svo til viðkomandi veitu á því formi sem óskað er.

Mælifræðilegir eiginleikar

Sölumælar hafa takmarkaðan líftíma og er hann breytilegur eftir gerð mælitækis og útfærslu. Mælar bila yfirleitt á kostnað veitunnar, þ.e. fara að mæla minni notkun en raunnotkun er, og því er mikilvægt að nákvæmni mælinga sé sem best.

Tvær leiðir eru til að viðhalda nákvæmni mælinga, annars vegar að skipta mælitækjum út eftir ákveðinn tíma eða fylgjast með þeim með reglubundnum úrtaksprófunum. Fyrri leiðin er yfirleitt mjög kostnaðarsöm og því er eini raunhæfi kosturinn að skilgreina ákveðið tölfræðilegt eftirlit og ná í úrtak úr söfnum með reglubundnum hætti og prófa hjá faggiltri prófunarstofu. Sé nákvæmni innan skilgreindra marka má framlengja lítíma mælasafnsins og taka svo úrtak nokkrum árum seinna.

Ákveðnar kröfur gilda um mælasöfn, þ.e. hvaða mælum má safna saman í hóp. Þeir verða að hafa sömu mælifræðilegu eiginleikana, vera framleiddir á sama tíma, umhverfisaðstæður þurfa að vera sambærilegar og gæði miðilsins samskonar (raforku- og vatnsgæði). Þessar upplýsingar þarf að skrá og viðhalda upplýsingunum til að geta skilgreint úrtaksmæla vegna framlengingar gildistíma.

Frumherji hefur komið sér upp öflugu upplýsingakerfi og vottuðu gæðastjórnunarkerfi til að halda utan um þessar upplýsingar, auk þess að reka faggilta prófunarstofu fyrir raforkumæla og algengustu vatnsmæla, og getur því sinnt þessari þjónustu á mjög hagkvæman hátt.

Ávinningur fyrir veitur

Ávinningur fyrir kaupendur þjónustunnar getur verið margskonar:

  • Hlutlaus aðili sinnir mælingum þ.e. hefur engan hag af niðurstöðu mælinga. Hlutlaus aðili útrýmir álitamálum um mælingu.
  • Gerðar eru auknar kröfur um mælieiginleika og auðveldara er fyrir sérhæfðan þjónustuaðila að fylgjast með öllum þáttum þjónustunnar.
  • Sérhæfð þjónusta fyrir orkuveitu.
  • Sérhæft upplýsingakerfi til að ná fram hagkvæmni í rekstri.
  • Engin fjárbinding í búnaði, fjármagnskostnaður því enginn.
  • Mánaðarleg leiga, samningsbundin til margra ára, kostnaður því þekktur í fjárhagsáætlanagerð.

 

2023-02-05 08:31:56