Skilmálar þessir gilda um viðskipti milli Frumherja hf., kt. 470297-2719, Þarabakka 3, 109 Reykjavík (hér eftir ,, Frumherji“ eða ,,félagið“) og viðskiptavinar (saman vísað til beggja sem ,,aðila“) vegna kaupa á þjónustu varðandi bifreiðarskoðanir. Að öðru leyti en samið er um í samningi þessum gilda lög um þjónustukaup vegna viðskipta við neytendur auk almennra reglna samninga- og kröfuréttar vegna viðskiptavina sem ekki eru neytendur.

1. Gildissvið og samþykki skilmálanna
Skilmálar þessir mynda bindandi samning milli Frumherja og viðskiptavinar og eru birtir á heimasíðu Frumherja. Þeir taka gildi þegar viðskiptavinur óskar eftir þjónustu Frumherja og eru staðfestir með undirritun viðskiptavinar á skoðunarniðurstöðu bifreiðar þar sem hann á þess kost að kynna sér þá með skönnun á QR code á skjalinu/eða við pöntun þjónustu.
Það er á ábyrgð viðskiptavinar að kynna sér vel skilmála þessa- starfsfólk Frumherja veitir frekari upplýsingar ef þess er óskað.

2. Skilgreiningar
2.1. Með ,,viðskiptavin“ í skilmálum þessum er átt við þann sem nýtir þjónustu Frumherja hvort heldur sem það er skráður eigandi ökutækisins og/eða sá sem hefur vörslu bifreiðar og kaupir nánar tilgreinda þjónustu af félaginu.

2.2. Tilhögun Gjaldtöku vegna endurgjalds fyrir þjónustu sem innheimt er samkvæmt gildandi verðskrá á hverjum tíma fyrir viðkomandi skoðun ásamt tilheyrandi opinberum gjöldum ef það á við sem Frumherja er skylt að innheimta fyrir hönd opinberra aðila áður en skoðun getur farið fram.

2.3. Skylduskoðanir eru skoðanir sem skylt er að ökutæki fái m.a. aðalskoðun, skráningarskoðun, breytingaskoðun og endurskoðun en það eru faggildar skoðanir skv. lagaskyldu þar sem verklag byggist m.a. á reglugerð um gerð og búnað tækja nr. 822/2004 með síðari breytingum, reglugerð um skoðun ökutækja nr. 414/2021 með síðari breytingum og skoðunarhandbók ökutækja útgefinni af Samgöngustofu.

2.4.3. Bilanaskoðun er skoðun sem aðallega er ætluð vegna ökutækja með óskilgreinda bilun (óhljóð, leka, röng virkni o.þ.h.) og viðskiptavinur óskar eftir könnun á mögulegri bilun til að auðvelda val á verkstæði til viðgerðar. Skoðun tekur 10-15 mín. Eingöngu eru skoðuð þau atriði sem viðskiptavinur biður um að séu skoðuð og miðað við að um afmarkað tilfelli sé að ræða en ekki er kannað hvort um aðrar eða tengdar bilanir geti verið að ræða.

2.5. Aukaskoðun er án lagaskyldu (og ekki faggild). Viðskiptavinur óskar sjálfur eftir afmarkaðri skoðun á tilgreindu atriði samkvæmt beiðni. Aukaskoðun er m.a. „Aukaskoðun að eigin ósk, Aukaskoðun hemlapróf að eigin ósk, Bilanaskoðun, Lekamengunarskoðun, Slysaskoðun að beiðni lögreglu.

3. Þjónusta og skyldur aðila
3.1. Frumherji veitir viðskiptavini þjónustu með framkvæmd þeirra tegundar skoðunar sbr. liðir 2.3., 2.4. og 2.5. sem viðskiptavinur hefur óskað eftir. Þjónusta félagsins skal vera í samræmi við lög og samninga aðila.

3.2. Viðskiptavini ber að veita þær upplýsingar sem þörf er á vegna skoðunar og greiða umkrafið gjald sbr. liður 2.2. vegna þjónustunnar. Til tryggingar fullri greiðslu samþykkir viðskiptavinur að veita Frumherja haldsrétt í þeirri bifreið sem er til skoðunar þar til reikningur Frumherja hefur verið að fullu greiddur.

4. Ábyrgð
Sérhvert mat á ástandi bifreiðarinnar skal vera í samræmi við reglur og skilmála sem gilda um viðkomandi skoðun.

4.1. Niðurstaða skoðunar miðast við ástand ökutækis á skoðunardegi ásamt þeirri skoðun sem ökutækið fór í. Eingöngu í skylduskoðunum sbr. lið 2.3 er niðurstaða skoðunar færð í skoðunarvottorð og jafnframt opinbera ökutækjaskrá.

4.2. Útfyllt skoðunarvottorð frá Frumherja segir til um niðurstöðu skoðunar á þeim tíma sem hún fór fram en veitir enga ábyrgð á ástands bílsins hvort heldur sem er gagnvart viðskiptavini né í viðskiptum milli þriðju aðila (það er ekki Frumherja) né nokkurs annars sem bílnum viðkemur.

4.3 Frumherji ber ekki ábyrgð á bilunum sem koma fram seinna.

5. Takmörkun ábyrgðar
Frumherji ber ekki ábyrgð á óbeinu eða afleiddu tjóni viðskiptavinar sem hann telur að rekja megi til galla á þjónustu Frumherja.

5.1. Ef viðskiptavinur vill koma á framfæri hrósi, ábendingu eða kvörtun þá er sérstakur reitur til þess aðgengilegur á heimasíðu Frumherja- frumherji.is

5.2. Ef ekki tekst að ná sáttum á milli aðila þá getur viðskiptavinur beint erindi sínu til Samgöngustofu eða því stjórnvaldi sem við á hverju sinni.

5.3. Um skilmála þessa gilda íslensk lög. Rísi ágreiningur milli viðskiptavina og Frumherja um efni eða framkvæmd þeirra, sem ekki tekst að leysa með samkomulagi, skal reka dómsmál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

6. Annað
Ef eitthvert ákvæði skilmála þessara verður dæmt ógilt, ólöglegt eða óhæft til fullnustu, dregur það ekki á neinn hátt úr gildi, lögmæti eða fullnustuhæfi annarra ákvæða skilmálanna

7. Gildistími
Skilmálar þessir gilda frá og með 1.9 2022 og þar til nýir taka gildi.

Niðurstöður bifreiðaskoðana

0 - Án athugasemda: Vel gert! Ökutækið þitt er innan viðmiðunarmarka skoðunarhandbókar og telst í lagi.

1 - Lagfæring: Lagfæra þarf öll atriði sem sett var út á í skoðuninni innan 1. mánaðar. Ekki þarf að færa ökutækið til endurskoðunar.

2 - Endurskoðun: Lagfæra þarf öll atriði sem sett var út á og atriði sem fengu dæmingu 2 hið fyrsta. Færa þarf ökutækið til endurskoðunar.

2 - Endurskoðun frestur liðinn: Í endurskoðun sem gerð er eftir að frestur er runninn út eru öll skoðunaratriði skoðuð upp á nýtt, líkt og um aðalskoðun væri að ræða. Athugið: Endurskoðun eftir frest tekur lengri tíma en venjuleg endurskoðun og er því talsvert dýrari en venjuleg endurskoðun en þó ekki jafn dýr og aðalskoðun þótt um næstum sömu vinnu sé að ræða.

Lengd frestsins: Almennt er frestur gefinn til síðasta dags næsta mánaðar.

3 - Aksturbann: Notkun ökutækisins er óheimil

 Vanrækslugjald: Allar upplýsingar um vanrækslugjald má finna á vanraekslugjald.is

 

 

2023-03-29 22:17:10